Sarajevo

Í dag er svona dagur þar sem ég finn að ég verð að draga fram tölvuna og skrifa eitthvað. Ég er stödd í Sarajevo. Ég fann það strax þegar ég kom að það er eitthvað við lyktina og landslagið sem heillar mig. Eitthvað sem er kannski kunnuglegt þótt það sé framandi, enda hef ég aldrei komið hingað áður. Suðupottur menningar og trúarbragða, alveg eins og eitthvað fyrir mig. Úr því að ég er hér – tilgangur ferðarinnar er lítið námskeið fyrir Erasmus+ starfsfólk þar sem við köfum í samtal milli ólíkra trúarbragða (interfaith dialogues) – þá ákvað ég að nýta tækifærið og fara á safn.

Ég veit ekki hvort ég get sagt frá safninu í löngu máli. Ég er enn þung í hjartanu og með sting í maganum eftir að hafa farið á safnið, en samt hefði ég alls ekki viljað sleppa því. Safnið heitir Museum of Crimes Against Humanity and Genocide og fjallar um þjóðarmorðin í Bosníu. Eða, fjallar um er kannski ekki rétta orðið. Þetta er ekki bara einhver fræðileg umfjöllun. Þetta er samansafn persónulegra muna fórnarlamba, sem hafa verið gefin safninu, ásamt frásögn eftirlifenda af manneskjunni. Sumar frásagnirnar eru langar og ítarlegar, aðrar eru stuttar og ljóðrænar. Sumar eru ákall til manneskjunnar, söknuður, þjáning eftirlifenda. Konur í ástarsorg segja frá dauða ástarinnar sinnar, mæður syrgja syni sína og synir og dætur syrgja feður. Eftirlifandi foreldrar syrgja litlu börnin sín og barnabörnin syrgja afa og ömmur.

Leikföng, seðlaveski, stuttermabolir og jakkar. Sumir hlutirnir voru með eigendum sínum þegar þeir voru teknir af lífi, aðrir hlutir voru gjafir sem þeir höfðu gefið eftirlifendunum í lifanda lífi.

Það var hópur fólks á safninu á sama tíma og ég. Á milli okkar ríkti þögn og virðing fyrir því að við vorum á stað til að minnast fórnarlamba þjóðarmorðs. Andrúmsloftið var þrungið sorg og á einhverjum tímapunkti byrjaði úrið mitt að suða. Það lætur mig vita þegar hjartslátturinn minn verður óreglulegur. Þótt ég hafi reynt að halda ró minni þá lýgur líkaminn ekki.

Mér finnst ég þurfa að gera upp þessa heimsókn. Að hluta til vegna þess að heimurinn er þrunginn spennu sem ég óttast að brjótist út í frekari átökum. Yfir öllu liggur angist yfir þjóðarmorði samtímans, verður kannski reist um það safn í framtíðinni? Aðeins tíminn mun geta svarað því.

Safnið sýnir nákvæmlega þann hrylling sem mannfólk getur verið fært um og ég vildi óska að þetta safn hefði aldrei orðið til. En það er þarna, stendur sem vitnisburður um það sem hatur og afmennskun gerir. Þessir nokkrir klukkutímar af þjáningu sem ég upplifði í sálu og hjarta í kringum þessa heimsókn mína á safnið eru dropi í haf þjáningar fórnarlamba þjóðarmorðs. Að mínu mati er það skylda þeirra sem standa fyrir utan slíkar hörmungar að horfast í augu við að þær hafi átt sér stað – og eigi sér stað. Það hjálpar engum að líta undan og þora ekki að hrófla við eigin þægindum. Sinnuleysi (e. apathy) þeirra sem þora ekki að finna til er það sem gefur hatrinu færi á að vaxa mótstöðulaust.

Megi sem flest okkar læra af fortíðinni, taka okkur tíma til að skilja þjáningar annarra, og taka síðan afstöðu gegn áframhaldandi þjáningum fólks. Megum við finna ást í hjarta okkar gagnvart því sammannlega sem tengir okkur saman, frekar en að einblína á það sem er ólíkt.

Nokkrar myndir sem ég tók í dag. Hvala, Sarajevo.