Rökkrið færist yfir

Ég tek yfirleitt sumarfríið mitt mestallan júlímánuð, sem verður til þess að mér finnst ágúst næstum vera haustmánuður. Það er farið að rökkva og ég tengi sumarið við bjartar nætur. Það er samt einhver ótrúlega mikil værð sem kemur yfir mig þegar ég get farið að kveikja á kertum aftur og næturnar og kvöldin verða hugguleg.

Sumarnætur eru auðvitað huggulegar á sinn hátt en það er oft erfitt að fara að sofa með bleik og appelsínugul glóandi ský við sjóndeildarhringinn handan Kirkjusandsins, þar sem sólsetrið er í seilingarfjarlægð.

Ég hef verið vísvitandi að halda mér fjarri samfélagsmiðlum í sumar. Það eru ýmis mál sem dúkkað hafa upp í samfélaginu sem mér hefði einhvern tímann þótt mikilvægt að tjá mig um - og í sjálfu sér þykir mér það enn - en ég finn að ég er eiginlega brunnin upp. Kannski með lækkandi sól og haustinu fyllist ég aftur einhverju bolmagni í að tjá mig um menn og málefni sem skipta mig máli, en sumarið er minn tími. Tími með ástinni og fjölskyldunni, tími til að sofa út og endurhlaða batteríin.

Regnið bylur á þakinu í sumarbústaðnum við Syðri-Brúará, hér fyrir innan berast engin hljóð nema af léttum dansi fingra minna yfir lyklaborðið og lágt suðið í varmadælunni. Ég get fátt ímyndað mér huggulegra og er því ekki hissa á að ég hafi sest niður og farið að skrifa.

Það er eflaust til marks um að mér hafi tekist að hlaða batteríin ansi vel að þegar ég hugsa til haustsins þá fyllist ég ekki tilhugsun um að það verði ómögulegt. Vonandi bara viðráðanlegt, rútína og einhver ævintýr inn á milli. Alltaf einhver ferðalög, innanlands sem utan, því ekki get ég setið kyrr á sama stað.

Á sama tíma og ég finn einhverja þreytu innra með mér, næstum hlýja þreytu, yfir að vera úthvíld - eða svo gott sem, allavega nú í kvöld - er ég þjökuð af samviskubiti, reiði og vonleysi yfir ástandi heimsins. Í mér er líka einhver þrjóska og þvermóðska sem hefur byggst upp í sumar, barátta og kraftur sem ég finn að kraumar undir niðri. Ég veit ekki alveg hvert hann mun leiða mig, vonandi get ég skrifað eitthvað um það síðar þegar ég lít til baka.