Það tekur að kvölda
Sólin er sest og bænakallið ómar allt í kring. Það er ekki samstillt heldur berst sérstakur ómur frá hverjum moskuturni. Sumir syngja með slaufum og skreytingum, á meðan aðrir syngja orðin skýrt og rólega. En þeir syngja sömu versin, svo þetta verður eiginlega að notalegum kór. Guð er mikill, segja þeir og hér snýst allt um guð. Guði sé lof, ef guð lofar og þökk sé guði eru orð sem fólk notar mjög hversdagslega. Sjáumst á morgun - ef guð lofar.
Svo þagna þeir skyndilega og bílflauturnar taka við. Ég horfi yfir pálmatré sem stendur hátt upp úr garði með nokkrum gömlum laufguðum trjám og einu mímósutré. Nú í apríl ber það skærfjólublá blóm. Þau eru svo fjólublá mitt í sandlituðum byggingunum að þau virðast næstum ónáttúruleg. Sjálflýsandi fjólublá.
Ég fylgist með dúfunum á þakinu fyrir aftan trén, húsið er gömul villa með stórum gervihnattadisk á þakinu. Þar eru líka litlar íbúðir, upprunalega fyrir þjónustufólk, og fyrr í dag hengdi maður þar upp þvott á snúru. Gluggarnir á villunni eru lokaðir með gluggahlerum. Það sem ég gæfi fyrir að komast þarna inn að skoða.
Þegar ég fékk að heimsækja villuna sem amma mín eyddi einhverjum hluta æskunnar sinnar í þá gerðist eitthvað í sálinni á mér. Villan tilheyrir ættingjum mínum en sá sem fór mest fyrir því að halda villunni innan fjölskyldunnar er nýlega látinn og ég óttast að synir hans muni á endanum losa sig við hana. Villan er stórglæsileg en þarfnast mikils viðhalds. Ein mín heitasta ósk er að fá að koma þangað aftur, að minnsta kosti í nokkra daga, en hvenær það verður veit ég ekki. Inshallah, ef guð lofar, verður ekki of langt þangað til.
Ég fylgist með rökkrinu færast hægt og rólega yfir. Í dag var 40 stiga hiti þannig að ég fór ekkert út eftir hádegi. Mér finnst hitinn notalegur og hann fer mér mjög vel. Líður vel í hitanum, líkaminn þarfnast hans.
Fyrir utan gluggann í herberginu eru blómapottar. Í einum blómapottinum er skál með vatni handa fuglunum. Þeir koma hingað öðru hverju og fá sér vatnssopa. Það er ljúft fylgjast með þeim - þeir fylgjast stundum með okkur held ég líka. Fá sér vatnssopa og halla svo undir flatt á meðan þeir horfa á okkur. Kannski sjá þeir okkur samt ekkert. Sjá bara spegilmyndina sína í glerinu.
Nú er búið að kveikja á ljósastaur og birtu stafar frá gluggum nokkurra íbúða, en þar eru gardínur dregnar fyrir - en ekki hjá mér. Ég er sennilega eins og í hálfrökkvuðu fiskabúri, upplýst af birtunni frá spjaldtölvunni sem ég skrifa á.
Það er ennþá heitara úti en inni. Loftkælingin er þögnuð og íbúðin er náttúrulega svöl, guði sé lof. Það verða viðbrigði að fara út. Ég hlakka til. Beint út í lifandi, dáleiðandi kaos og orku sem finnst hvergi nema í Kaíró.