Kyrrð og ró
Mér varð hugsað til þess í kvöld hvort við séum mörg enn, á mínum aldri, sem finnst fátt notalegra en að stilla á Rás 1 svona seint á kvöldin, leggja kapal og horfa á kyrrðina fyrir utan gluggann. Það er alveg logn og ég tengi svona kvöld við barnæskuminningar af Túngötunni, heima hjá ömmu og afa á Tálknafirði. Ekki nóg með gamla gufan rúlli rólega í útvarpinu (Vor í Vaglaskógi - í upprunalegri útgáfu - í loftinu í þessum töluðu orðum), heldur tifar klukkan á veggnum og ísskápurinn marrar. Allt þetta vekur ljóslifandi minningar af eldhúsinu á Túngötunni eins og það var, eins og við værum þarna öll ennþá. Man eftir að hafa staulast fram eftir að hafa farið í háttinn og fundið fyrir mömmu, ömmu og afa spila fávita, seinna meir fór ég að spila með þeim - og stundum fór ég fram í eldhús löngu eftir að ró færðist yfir allt húsið og mér fannst ég vera á besta og öruggasta stað í heiminum.
Ég er ekki viss um að allt fólk sem elst upp í dag upplifi þessa kyrrð og ró nokkurn tímann. Línuleg dagskrá heyrist ekki á mörgum heimilum, allt er til taks alltaf (sem getur ekki verið gott) og truflunin frá símanum er yfirgnæfandi.
Svo velti ég því líka fyrir mér hvort það séu ekki færri sem þekkja það að fara út á land og dvelja dögunum saman í góðu yfirlæti hjá ömmu og afa í þorpi á landsbyggðinni? Ég vona að ég hafi rangt fyrir mér með það, því þær dásemdarminningar er einstaklega gott að kalla fram hér í eldhúskróknum á Laugarnesveginum.